5. fundur umhverfisnefndar var haldinn miðvikudaginn 4. júní 2008 kl. 17:00
að Iðndal 2.
Mætt voru: Þorvaldur Örn Árnason, Rakel Rut Valdimarsdóttir, Guðbjörg Theodórsdóttir,
Eric dos Santos og Helga Ragnarsdóttir sem jafnframt ritar fundargerð í tölvu. Sverrir
Agnarsson mætir á fundinn.
Dagskrá:
1. mál
Umhverfisdagar og hreinsunarvika. Hvernig tókst til?
Sverrir gerir grein fyrir því að miklu hafi verið fargað af rusli úr görðum, trjám, mold og
öðru. Fimm járnagámar voru fylltir ásamt þremur vörubílum. Járnagámar eru fríir svo
kostnaður sveitarfélagsins var enginn af þeim. Járn er verðmætt rusl og Hringrás sækir það
að kostnaðarlausu.
Nefndin ítrekar að íbúar flokki rusl áður en farið er með það á gámasvæðið.
Af því sem nefndarmenn hafa heyrt er fólk almennt ánægt með hreinsunarvikuna. Þó voru
brögð af því að rusl var ekki sótt og að aðstoð við að fjarlægja stóra hluti var ekki eins og
auglýst var.
Lagt er til að hreinsunardagar verði aftur dagana fyrir fjölskyldudaginn.
2. mál
Umhverfisverkefni sumarsins. Verkefni vinnuskólans og sjálfboðavinnuhóps
Veraldarvina. Sbr. umhirðuáætlun.
Sverrir gerir grein fyrir verkefnum sumarsins: Búið er að fá verktaka í gatna- og gangstétta-
framkvæmdir í sumar. Víða verður framkvæmt í bænum – bætt þar sem þörf er á m.a. í
Leirdal og við Hafnargötu. Illa gengur að fá fólk til vinnu, sérstaklega flokkstjóra. Klárað
verður að snyrta innkomuna í bæinn, snyrta þarf í kringum íþróttasvæðið og við
félagsmiðstöðina. Setja á upp leiksvæði í dalahverfinu. Unnið hefur verið í kattaförgun, sex
hafa verið fangaðir. Kettir eru stórvandamál, sérstaklega í suðurhluta Voganna. Búið er að
hreinsa Norðurkotið sem brann og stendur til að snyrta í kring í sumar. Ekkert gerist með
púttvöllinn neðan Hvammsgötu, þarf að skipuleggja sem slíkan eða grenndarkynna. Snyrt
hefur verið við enda Mýrargötu. Nefndin leggur til að Minni-Vogatúnið nái niður að
sjóvarnargarði og ekki verði fyllt meira í túnið.
3. mál
Undirbúa og auglýsa umhverfisviðurkenningar sumarsins.
Þorvaldur biður Sverri um að fá þá sem vinna við umhverfismál í sveitarfélaginu til að koma
með tillögur sem nefndin myndi skoða nánar.
Sverrir víkur af fundi.
Farið var yfir tillögu að auglýsingu. Lagt til að næsti fundur verið helgaður
umhverfisviðurkenningunum og að hann verði haldinn mánudaginn 7. júlí kl. 10:00.
Viðmiðunarreglur liggja fyrir.
4. mál
Jarðvegslosunarsvæði
Fyrir liggja stórframkvæmdir við gatnagerð í Grænuborgarhverfi. Fyrirtækið sem
framkvæmir hyggst flokka jarðveg, endurnota grjót til framkvæmdanna en losa sig við
moldina að hluta. Nefndin telur æskilegt að nýta sem best það efni sem til fellur við
framkvæmdir. Sveitarfélagið býr ekki yfir neinum jarðvegslosunarsvæðum svo brýnt er að
leysa það mál sem fyrst.
Svæði sem ætluð verða fyrir skóg eða útivistarsvæði gætu e.t.v. tekið við einhverju og athuga
þyrfti hvort hægt væri að nota eitthvað af jarðveginum við framkvæmdir á nýju
íþróttavallarsvæði.
5. mál
Fræðsluskiltin
Unnið er að lokafrágangi skiltanna. Þorvaldur, Helga og Guðbjörg hafa sett niður hæla sem
staðsetja skiltin. Sú hugmynd kom upp að nýta bakhlið skiltanna fyrir myndir og texta um
m.a. Stóru-Voga á fjöruskiltinu en Austurkot, Arahól og Minni-Voga á tjarnarskiltinu. Það
yrði næsta verkefni.
6. mál
Ljósmyndir á Vogavef
Æskilegast er að allar myndir tengdar umhverfismálum verði inni á Vogasíðunni. Þar er nú
þegar efnilegur vísir að myndasafni. Útbúa þyrfti flokkunarkerfi. Tilgreina þarf höfunda
myndanna.
7. mál
Framhald fornleifaskráningar
Farið er að tillögum nefndarinnar þar sem lagt var til að klára að skrá Vogajarðir og
Kálfatjarnartorfuna. Vinna við áframhaldandi skráningu er nú þegar hafin.
8. mál
Önnur mál
Settir voru kassar – hugmyndabankar á þrjá staði í bænum. 110 miðar komu upp úr
kössunum. 55 flokkuðust sem umhverfismál, 32 önnur framfaramál og 23 voru grín eða
ómarktækir. 15 mál fjölluðu um aukinn gróður, 18 um snyrtingu og tiltekt, 7 varðandi
gangstéttar, götur og hraðahindranir og 4 um tjörnina. Tilraunin tókst vel og betur en
nefndarmenn þorðu að vona. Hugmyndirnar sem snúa að umhverfismálum verða nú teknar
til athugunar í umhverfisnefnd. Aðrar hugmyndir eru sendar bæjarstjóra.
Nefndin ítrekar að akstur fjórhjóla utan vega er bannaður.
Þorvaldur leggur til að nefndin íhugi fyrir næstu fjárhagsáætlun hvaða stóru framfaramál hún
sjái fyrir sér að tekin verði fyrir.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 19:50