Skipulagsnefnd Sveitarfélagsins Voga

41. fundur 29. ágúst 2022 kl. 17:30 - 19:00 á bæjarskrifstofu
Nefndarmenn
  • Guðrún Sigurðardóttir varaformaður
  • Andri Rúnar Sigurðsson formaður
  • Ingþór Guðmundsson aðalmaður
  • Friðrik V. Árnason aðalmaður
  • Guðmundur Kristinn Sveinsson aðalmaður
  • Gísli Stefánsson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Davíð Viðarsson embættismaður
Fundargerð ritaði: Davíð Viðarsson Sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs
Dagskrá

1.Umsókn um framkvæmdaleyfi Suðurnesjalína 2

2104113

Tekið fyrir að nýju framkvæmdaleyfi Suðurnesjalínu 2. Úrskurðarnefnd Umhverfis- og auðlindamála feldi úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Voga um að hafna umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir 220kV Suðurnesjalínu 2. Sveitarfélagið hefur farið ítarlega yfir annmarka sína á málinu, ásamt því látið Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands meta eldgosavá með tilliti til jarðhræringa á Reykjanesi 2021.
Hafnað
Í málinu liggur fyrir álit Skipulagsstofnunar frá 22. apríl 2020 um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Þá liggja fyrir í málinu úrskurðir úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í málum nr. 41, 46, 53 og 57/2021.
Að auki liggur fyrir matsskýrsla framkvæmdaraðila ásamt fylgiskjölum. Þá liggur fyrir umsókn um framkvæmdaleyfi ásamt fylgiskjölum og tillaga skipulagsnefndar að greinargerð sveitarstjórnar ásamt þeim gögnum sem þar eru tilgreind sbr. umfjöllun í greinargerðinni.
Það er mat skipulagsnefndar að sú framkvæmd sem sótt er um og lýst er í framkvæmdaleyfisumsókn og fylgiskjölum sé ein af þeim framkvæmdaleiðum sem lýst er í matsskýrslu þ.e. valkostur C., loftlína samsíða Suðurnesjalínu 1.
Nefndin hefur einnig skoðað hvort umsótt framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir. Umsóknin er bæði í samræmi við bæði svæðisskipulag og aðalskipulag. Deiliskipulag er ekki til af framkvæmdasvæðinu.
Gengið hefur verið úr skugga um að gætt hafi verið ákvæða laga um náttúruvernd og annarra laga og reglugerða og eins hvaða skilyrði beri að setja fyrir útgáfu framkvæmdaleyfisins verði fallist á það. Ekki hefur verið samið um kostnað við útgáfu og eftirlit leyfisins.
Niðurstaða Skipulagsstofnunar, í áliti stofnunarinnar frá 22. apríl 2020, er sú að matsskýrsla Landsnets um Suðurnesjalínu 2, sem lögð var fram samkvæmt 10. gr. sömu laga, uppfyllti skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum. Er það jafnframt niðurstaða skipulagsnefndar.
Skipulagsstofnun komst jafnframt að þeirri niðurstöðu í áliti sínu að umhverfismat Suðurnesjalínu 2 sýni að lagning línunnar sem jarðstrengs sé best til þess fallin að draga eins og kostur er úr neikvæðum áhrifum framkvæmdarinnar, sbr. markmiðsákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum. Að mati Skipulagsstofnunar er æskilegasti kosturinn valkostur B þ.e. jarðstrengur meðfram Reykjanesbraut.
Framkvæmdaraðili hefur um sótt hefur um framkvæmdaleyfi fyrir valkosti C, loftlínu meðfram Suðurnesjalínu 1, sem hefur óumdeilt flest neikvæð umhverfisáhrif allra skoðaðra valkosta.
Að teknu tilliti til framangreinds og fyrirliggjandi gagna, þeirra sem lágu fyrir við fyrri umsókn og nýrra gagna, hefur skipulagsnefnd Sveitarfélagsins Voga tekið málið á ný til skoðunar.
Óumdeilt verður að telja, með vísan til niðurstöðu matsskýrslu, álits Skipulagsstofnunar og úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna fyrri afgreiðslu, að lagning Suðurnesjalínu 2 sem loftlínu, samkvæmt fyrirliggjandi umsókn þ.e. skv. valkosti C, hafi í heildina flest neikvæð umhverfisáhrif.
Suðurnesjalína 2 er umfangsmikið mannvirki sem liggur yfir langan veg, þar sem landslag sé opið og víðsýnt, náttúrufar njóti verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd auk þess sem það hefur hlotið alþjóðlega viðurkenningu og vottun UNESCO vegna jarðfræðilegrar sérstöðu. Línan liggi nálægt einum fjölfarnasta þjóðvegi landsins innan sveitarfélagsins, sem jafnframt sé gátt erlendra ferðamanna inn í landið og fari um og liggi nærri náttúrusvæðum sem séu vinsæl útivistarsvæði í grennd við þéttbýlasta svæði landsins. Margt mæli með því að leggja línuna í jarðstreng alla leið innan sveitarfélagsins, skv. valkosti B í umhverfismatinu, meðfram Reykjanesbraut. Sveitarfélagið hafi áður bent á það en sá valkostur sé að auki í samræmi við ákvæði aðalskipulags sveitarfélagsins. Ávinningur af þeirri leið, með tilliti til umhverfisáhrifa samanborið við loftlínuvalkosti, felist í minni áhrifum á landslag og ásýnd, ferðaþjónustu og útivist, vistgerðir og gróður og fuglalíf. Það varði ekki bara hagsmuni íbúa sveitarfélagsins heldur einnig almannahagsmuni.
Hvað varðar náttúruvá og almannahagsmuni þá er kunnara er en að frá þurfi að greina að frá síðustu afgreiðslu málsins hefur gosið tvisvar á Reykjanesi. Vegna þess og athugasemda við fyrri málsmeðferð óskaði Sveitarstjórn eftir nýrri skýrslu um náttúru- og eldgosavá í sveitarfélaginu svo sem nánar er gerð grein fyrir í drögum að greinargerð sveitarstjórnar um afgreiðslu málsins.
Í skýrslunni er tekið fram að sú staðreynd að ný eldsumbrotahrina sé hafin á Reykjanesi, sem staðið geti mjög lengi, kalli á endurskoðun fyrri áætlana um staðsetningar á mikilvægum innviðum eins og Suðurnesjalínu 2. Skipulagsnefnd telur að ekki verði dregin önnur ályktun af skýrslunni en sú að vegna áhættu á hraunrennsli sé, hvað sem öðru líður, ekki skynsamlegt að byggja Suðurnesjalínu 2 við hlið Suðurnesjalínu 1 á miðju áhættusvæði sem erfitt sé að verja. Það raski afhendingaröryggi rafmagns á Suðurnesjum. Lína á öðrum stað myndi strax auka afhendingaröryggi.
Það er því mat skipulagsnefndar að leið B kunni einnig af þeim sökum að vera heppilegri m.t.t. þess að Reykjanesbrautin er í jaðri áhættusvæðis og hugsanlega hægt að verja brautina. Yrði sú leið valin verði ný lína a.m.k. ekki á nákvæmlega sama svæði og núverandi lína. Mögulega þurfi að vera með hluta línunnar í lofti vegna áhættu á höggunarhreyfingum á hluta af svæðinu. Ljóst megi vera að sú ályktun, sem dregin var í minnisblaði Eflu, um að áhættan sé einkum höggunarhreyfingar en ekki eldsumbrot og hraunrennsli, hefur breyst. Skipulagsnefnd vill einnig árétta að áhætta vegna höggunarhreyfinga á hluta línuleiðarinnar leiðir ekki af sér þá niðurstöðu að heppilegasti kosturinn m.t.t. náttúruvár sé kostur C. Skipulagsnefnd telur a.m.k. rétt að staldra við og endurmeta stöðuna.
Fyrir liggur, samkvæmt framangreindu, að mati nefndarinnar, að umhverfisáhrif þeirrar framkvæmdaleiðar sem sótt hefur verið um leyfi fyrir séu mest af öllum þeim leiðum sem metnar voru. Þá liggur fyrir, m.t.t. nýrrar skýrslu jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands, dags. apríl 2022, að áhrif náttúruvár þ.e. áhættu á hraunrennsli sé, hvað sem öðru líður, ekki skynsamlegt að byggja Suðurnesjalínu 2 við hlið Suðurnesjalínu 1 á miðju áhættusvæði sem erfitt sé að verja. Það raski afhendingaröryggi rafmagns á Suðurnesjum. Lína á öðrum stað t.d. skv. leið B myndi strax auka afhendingaröryggi. Það væri því andstætt sjónarmiðum um afhendingaröryggi rafmagns á Suðurnesjum að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir byggingu línu skv. leið C.
Að auki bendir skiplagsnefnd á að landeigendur á svæðinu eru flestir á móti því að farin verið leið C. Það að fara þá leið mun tefja málið enn frekar en reikna má með kærum og mögulega málaferlum verði sú leið valin. Það mun að auki líklega kalla á eignarnám á nauðsynlegum réttindum. Framangreint mun hafa í för með sér að ólíklegt er að hægt verði að ráðast fljótt í framkvæmdir. Það mun því, auk þess að hafa flest neikvæð áhri f á umhverfið, draga úr afhendingaröryggi á svæðinu og ganga gegn almanna hagsmunum.
Þá telur nefndin ljóst að uppbygging línu skv. leið C sé líklegri til þess að útiloka byggingarframkvæmdir sunnan Reykjanesbrautar heldur en ef línan yrði að mestu leyti lögð skv. leið B.
Með vísan til framangreinds, nánari rökstuðnings sem fram kemur í 5. kafla tillögu að greinargerð sveitarstjórnar, leggur skipulagsnefnd til að hafnað verði umsókn Landnets um framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu skv. leið C.
Vegna lokaorða í bréfi Landsnets frá 6. maí 2022, um að önnur sveitarfélög á línuleiðinni hafi öll gefið út leyfi og óhóflegur dráttur hafi sem orðið á afgreiðslu framkvæmdaleyfis í sveitarfélaginu, er minnt á að langstærsti hluti framkvæmdarinnar liggur innan Sveitarfélagsins Voga. Lengd loftlínu vegna framkvæmdarinnar í heild 32,39km. Þar af eru 17,26km innan Sveitarfélagsins Voga, tæpir 7km innan Hafnarfjarðar, 7,5km innan Reykjanesbæjar og 640m innan Grindavíkur. Málið er að auki mjög umdeilt innan sveitarfélagsins, bæði meðal íbúa og landeigenda auk þess sem ný vakin eldvirkni á svæðinu getur haft mikil áhrif innan sveitarfélagsins og þar með talið á umrædda framkvæmd. Nauðsynlegt hafi verið að fá nýtt álit jarðvísindamanna. Það er því ekki óeðlilegt að málið hafi tekið lengri tíma hjá sveitarfélaginu en öðrum sveitarfélögum þar sem framkvæmdin hefur ekki jafn mikil áhrif.

2.Fyrirspurn vegna skipulags- og byggingarmála - Iðndalur 23

2206025

Sótt er um breytingar á húsinu skv. meðfylgjandi teikningum en ætlunin er að útbúa íbúðir á efri hæð yfir notkunareiningum 103 og 104.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Nefndin bendir á að samþykki annarra eiganda hússins þarf að liggja fyrir. Með teikningum þarf að skila ítarlegri brunaskýrslu. Í framhaldi verður óskað eftir umsögn brunavarna, heilbrigðiseftirlits og vinnueftirlits vegna hússins þar sem íbúðir og iðnaður fer saman.

3.Hrafnaborg 5 - deiliskipulag fjölgun íbúða

2208023

Kristinn Ragnarson arkitekt sækir um fyrir hönd lóðarhafa og fer þess á leit við skipulagsnefnd að heimiluð verði óveruleg breyting á deiliskipulagi lóðarinnar Hrafnaborg 5. Breytingin felur í sér fjölgun íbúða úr 8 í 9 íbúðir.
Samþykkt
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Það er mat skipulagsnefndar að um óverulega breytingu sé að ræða skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Jafnframt er það mat nefndarinnar að breytingin varði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins og umsækjanda og er því fallið frá að grenndarkynna tillöguna. Skipulagsnefnd leggur til við bæjarstjórn að heimila breytinguna og fyrirliggjandi tillaga verði samþykkt og málsmeðferð verði í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

4.Deiliskipulagsbreyting miðbæjarsvæði

2208022

Í breytingunni felst að byggingareitum fjölgar úr tveimur í þrjá. Heimilt verður að byggja á 1-2 hæðum fyrir miðbæjarstarfsemi, verlun og þjónustu. Einnig er heimilit að byggja fjölbýlishús á 3-4. hæðum. Ásamt því eru settir skilmálar um nýtingarhlutfall og fjölda íbúða.
Frestað
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Nefndin frestar erindinu þar til að lóðinni er úthlutað.

5.Umsókn um Byggingarheimild umfangsflokkur 1 - Heiðargerði 29c

2208001

Sótt er um leyfi fyrir viðbyggingu og minniháttar breytingum innanhúss.
Samþykkt
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Umsóknin samræmist aðalskipulagi en deiliskipulag liggur ekki fyrir og er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Samþykkt er að grenndarkynna erindið í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 áður en umsókn um byggingarleyfi er afgreidd. Erindið skal kynna aðliggjandi lóðum, Suðurgata 10, Heiðargerði 29a,b og d.

6.Fyrirspurn um byggingarmál - Fagridalur 8

2205036

Fyrirhuguð bygging bílgeymslu hefur verið grenndarkynnt í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Athugasemd barst við grenndarkynningu.
Hafnað
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Umsóknin hefur verið grenndarkynnt í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Athugasemd hefur borist frá eiganda Miðdals 9, vegna skerðingar á birtu og neikvæðs verðmats á Miðdal 9 við fyrirhugaða framkvæmd. Svar við athugasemd: Það er mat nefndarinnar að bygging bílgeymslu á lóð Fagradals 8 hafi óveruleg áhrif á birtu og verðmat á Miðdal 9. Fyrir liggi eldri byggingaráform frá árinu 2000 sem sveitarfélagið hefur ekki formlega afturkallað. Þau byggingaráformin séu í samræmi við byggðarmynstur, þéttleika byggðar og landnotkun á svæðinu. Ásamt því er sú framkvæmd bæði lægri og minni um sig en sú sem var grenndarkynnt í sumar. Bygging bílgeymslu ætti því að miðast við eldri byggingaráformin. Umsóknin eins og hún liggur fyrir er því hafnað. Berist ný umsókn verði hún grenndarkynnt að nýju.

7.Fagridalur 6 - Umsókn um byggingaráform og byggingarleyfi

2201008

Fyrirhuguð bygging bílgeymslu hefur verið grenndarkynnt í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Athugasemd barst við grenndarkynningu.
Hafnað
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Umsóknin hefur verið grenndarkynnt í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Athugasemd hefur borist frá eiganda Miðdals 5, vegna skerðingar á birtu og útsýni Miðdals 5 við fyrirhugaða framkvæmd. Svar við athugasemd: Það er mat nefndarinnar að bygging bílgeymslu á lóð Fagradals 6 hafi óveruleg áhrif á birtu og útsýni á Miðdal 5. Það er hinsvegar mat nefndarinnar að ekki eigi að byggja á lóðarmörkum á þessu svæði og stærð bílgeymsla og annara viðbygginga ætti að halda í lágmarki vegna þrengsla. Því ætti að miða við það byggðarmynstur, þéttleika og landnotkun sem fyrir er á svæðinu. Umsóknin eins og hún liggur fyrir er því hafnað. Berist ný umsókn verði hún grenndarkynnt að nýju.

8.Fyrirspurn um byggingarmál

2208017

Jón Magnús sendir inn fyrirspurn fyrir lóðarhafa Iðndals 10a og 12. Óskað er eftir að stækka lóð Iðndals 12 þar sem fyrirhugað eru stæði stórra bíla.
Hafnað
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Nefndin telur þörf á bílastæðum stærri bíla í þéttbýlinu og um ákjósanlegan stað sé að ræða. Erindinu er því hafnað.

9.Fyrirspurn um byggingarmál - Fagridalur 1

2208003

Sótt er um að stækkun á innkeyrslu.
Samþykkt
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Nefndin samþykkir erindið en bendir eiganda á að framkvæmdir verði unnar í samráði við skipulags- og byggingarfulltrúa.

10.Fyrirspurn um byggingarmál - Fagridalur 9

2208018

Sótt er um að stækkun á innkeyrslu
Samþykkt
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Nefndin samþykkir erindið en bendir eiganda á að framkvæmdir verði unnar í samráði við skipulags- og byggingarfulltrúa

11.Framkvæmdaleyfi vegna lagninu ljósleiðara í Hafnargötu

2208042

Ljósleiðarinn ehf sækir um framkvæmdaleyfi vegna lagningu ljósleiðara á Hafnargötu skv. meðfylgjandi teikningu.
Samþykkt
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Nefndin samþykkir framkvæmdaleyfi fyrir lagningu ljósleiðara á umræddu svæði við Hafnargötu.

12.Deiliskipulag og uppbygging á reit IB-5

2205002

Lögð eru fyrir nefndin eldri gögn vegna skipulags ofan við Dali, nánar tiltekið á reit ÍB-5.
Lagt fram
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Lagt fyrir nefndina.

Fundi slitið - kl. 19:00.

Getum við bætt efni síðunnar?