Fyrir þá sem kjósa að njóta útivistar er Sveitarfélagið Vogar kjörinn staður til búsetu Göngustígar eru víða um þéttbýlið með áningarstöðum við áhugaverða staði. Ganga meðfram strandlengjunni þar sem óröskuð fjaran nýtur sín er einstök ásamt fjölda fornra gönguleiða milli bæja á Vatnsleysuströnd og byggðarlaga á Suðurnesjum. Allt þetta er í aðeins nokkurra mínútna fjarlægð frá þéttbýlinu.
Keilir
Keilir er 379 metra hátt móbergsfjall. Einkennisfjall Reykjanesskagans. Tiltölulega auðvelt er að ganga á Keili og víðsýnt þegar þangað er komið. Keilir er í um það bil 15 mínútna akstursfjarlægð frá Vogunum. Ferðamálasamtök Suðurnesja vinna nú að uppsetningu á útsýnisskífu á Keili.
Kálfatjarnarkirkja
Á Vatnsleysuströnd stendur Kálfatjarnarkirkja sem reist var árið 1893. Kirkjan er sannkölluð völundarsmíði og ein stærsta sveitakirkja á landinu. Umhverfi kirkjunnar á sér merka sögu og á hlaðinu við kirkjuna stendur meðal annars hlaðan Skjaldbreið sem hlaðin var snemma á 19. öld. Kálfatjarnarkirkja er friðuð.
Vogastapi
Vogastapi er sunnan Voga. Hann er um 80 metrar yfir sjó og liggur milli Voga og Njarðvíkur. Þar er mikið fuglalíf og fagurt útsýni. Frá Vogunum er um 30 mínútna ganga á Stapann og er Grímshóll hæsta bunga hans. Þar er útsýnisskífa og í góðu skyggni er fjallasýn mikil. Á Vogastapa er reimt og er fjöldi frásagna til af samskiptum Vogamanna og Stapadraugsins
Háibjalli
Bjallinn er misgengi sem er austast af fimm misgengjum sem ganga út úr Vogastapa til suðvesturs. Skógrækt hófst við Háabjalla 1949 og er þar nú gróðursæll skógarreitur í eigu Skógræktar- og landgræðslufélagsins Skógfells. Þangað er aðeins um 20 mínútna göngufjarlægð frá Vogum og verður aðgengi þangað til fyrirmyndar þegar undirgöng undir Reykjanesbraut hafa verið opnuð.
Snorrastaðatjarnir
Skammt frá Háabjalla eru Snorrastaðatjarnir, Þær eru gróskumiklar og mikilvægur áningastaður farfugla vor og haust. Oftast er talað um að tjarnirnar séu þrjár en þær sýnast þó fleiri í vætutíð. Snorrastaðatjarnir og Háibjalli eru á náttúruminjaskrá.
Hrafnagjá
Hrafnagjá er misgengi í heiðinni ofan Voga. Gjáin dregur nafn sitt af hröfnunum sem gera sig gjarnan heimankomna þar. Hrafnslaupar eru enn algengir í Hrafnagjá og má sjá gamla og nýja laupa á klettasillum. Gjáin er gróskumikil og má þar meðal annars finna burkna, burnirót, fryggjargras auk algengra gras og lyngtegunda sem víða finnast í heiðinni.
Skógfellsstígur
Fyrir þá sem kjósa lengri gönguferðir er upplagt að ganga Skógfellsstíg, varðaða gönguleið til Grindavíkur. Þetta er afar falleg leið yfir hraun og fjalllendi þar sem spor forfeðranna eru meitluð í klappir. Gangan tekur 4-6 klst. Upphaf gönguleiðarinnar er rétt austan við Háabjalla í göngufjarlægð frá Vogum.
Staðarborg
Staðarborg er hringlaga steinhlaðin fjárborg í um tveggja kílómetra fjarlægð frá Kálfatjörn. Sagan segir að presturinn á Kálfatjörn hafi látið Guðmund nokkurn hlaða borgina fyrir sig og hafi hún átt að koma saman í toppinn. Þegar verkið var vel á veg komið hafi honum hins vegar snúist hugur því fjárborgin yrði þannig hærri en kirkjan og meiri að stærð. Guðmundur er sagður hafa gengið frá verkinu eins og borgin lítur út í dag. Í bjartviðri er útsýni mjög fallegt frá Staðarborg; mosavaxnar hraunbreiður á aðra hönd og fagurblár Faxaflóinn á hina, þar sem snæviþakinn Snæfellsjökull rís upp úr sjóndeildarhringnum u.þ.b. 100 km í burtu.